Bæta við úrræði
Bæta við fagaðila
Bæta við samtökum
Bæta við æfingum
Bæta við slökun
Bæta við fræðsluefni
Bæta við vefsíðu
Bæta við smáforriti
Bæta við hlaðvarpi
Bæta við hlaðvarpsþætti
Bæta við bók
Bæta við tímariti
Home » Heilsumolar » Að standa með sjálfum sér í veikindum og öðru veseni.

Að standa með sjálfum sér í veikindum og öðru veseni.

Bætt heilsa er verkefni sem byggir á samvinnu milli þín og þess meðferðaraðila (læknir, sálfræðingur, sjúkraþjálfari o.s.frv.) sem þú leitar til. Hafðu í huga að meðferðaraðili er heilbrigðisstarfsmaður sem þiggur laun fyrir að hjálpa þér að finna lausn á þeim vanda sem er að hrjá þig. Þú ert ekki byrði á heilbrigðiskerfinu þó þig vanti aðstoð til að finna leiðir til að ná betri heilsu.

Alþjóða Heilbrigðisstofnunin (WHO) hefur hvatt til slíkrar samvinnu með svokallaðri valdeflingu – sem þýðir að valdið yfir þinni eigin heilsu ætti að færast frá meðferðaraðilum yfir til þín.  Markmiðið ætti því að vera að auka skilning þinn á vanda þínum og veikindunum, gefa þér upplýsingar um alla möguleika í stöðunni og hjálpa þér að setja upp plan sem þér finnst mögulegt að fylgja.

En er þetta virkilega svona einfalt – í raunveruleikanum?

Hugsanlega ekki… allavega ekki enn. Of margir sem eru að glíma við langvinn veikindi kvarta sáran yfir því að ekki sé hlustað þegar þau leita eftir aðstoð, að fagfólk noti flókin og illskiljanleg orð sem geri það að verkum að þau viti ekki almennilega hvað sé að og hvað eigi gera. Oft fá þau líka misvísandi ráð og tilmæli sem rugla þau enn meira.

Rannsóknir sýna að valdefling, eins og sú sem WHO leggur til, auki líkur á bættri heilsuhegðun og betri heilsu.

Af því að við vitum að þetta virkar og af því að við vitum að það er mikið í húfi hjá þér, þá viljum við nesta þig með nokkrum góðum ráðum til að hjálpa þér að standa með sjálfum/sjálfri þér í þinni vegferð í átt að betri heilsu.

Byrjaðu á því að skrifaðu niður allar spurningar sem þú hefur og allt sem þú vilt ræða áður en þú ferð og hittir meðferðaraðila þinn. Mundu svo líka að skrifa niður alla helstu punktana sem koma fram í viðtalinu og geymdu þá vel. Það getur nefnilega verið erfitt að stóla á minnið sitt þegar maður er að glíma við langvinn veikindi.

Spurningar til að taka með sér:

  • Hvað er að mér? Viltu útskýra fyrir mér eins og ég sé fimm ára hvað er í gangi og hvað er að valda þessum veikindum.
  • Hvað þarf ég að gera? Hvenær? Hversu oft?
  • Af hverju er mikilvægt að ég geri það? Hvað gæti gerst ef ég geri þetta ekki?
  • Hvað annað er í stöðunni?
  • Geturðu bent mér á greinar eða heimasíður svo ég geti betur lesið mer til um það sem er að hjá mér?
  • Við hvern hef ég samband ef ég hef fleiri spurningar?

Ef meðferðaraðilinn segir “hafðu bara samband ef þetta verður ekkert skárra”.

  • Hvað þýðir það? Hvað þýðir skárra? Þýðir það að ég eigi bara að hafa samband ef ástandið verðir verra?
  • En ef ástandið verður ekkert betra? Hvenær má þá haft samband?

Ef það er tekið mynd, blóðprufa eða eitthvað annað álíka:

  • Hvenær fæ ég að vita niðurstöðurnar? Hver hefur samband við mig?
  • En ef ég verð ekkert farin að heyra í ykkur viku eftir það? Má ég þá hafa samband? Við hvern hef ég samband?

Eftir aðgerð eða erfitt viðtal:

  • Ég er í engu ástandi til að meðtaka það sem þú ert að segja. Ertu til í að skrifa þessar leiðbeiningar/upplýsingar niður og senda mér í gegnum Heilsuveru?

Í lok læknatíma:

  • Ertu til í að segja mér í stuttu máli það sem þú skrifaðir um mig. Mig langar bara að vera viss um að þú hafir skilið það sem ég var að segja til vera örugg/ur um að við séum á sömu blaðsíðu.

Þetta hljómar líklega allt eins bölvað vesen. Sem það á vissan hátt er… því það er bölvað vesen að vera veikur. En sé tekið mið af því hve dýrmæt heilsan er, þá er það lítill fórnarkostnaður að vera með vesen.

Gangi þér vel og mundu að þú ert dýrmætur meðlimur samfélagsins og átt skilið vinsemd og virðingu hvert sem þú leitar aðstoðar.

Heimildir:

  • World Health Organization. (2013). Health 2020: a European policy framework and strategy for the 21st century.
  • Hibbard, J. og  Greene, J. (2013). What The Evidence Shows About Patient Activation: Better Health Outcomes And Care Experiences; Fewer Data On Costs. Health affairs (Project Hope). 32. 207-14. 10.1377/hlthaff.2012.1061.
  • Jerofke, T., Weiss, M. og Yakusheva, O. (2014). Patient perceptions of patient-empowering nurse behaviours, patient activation and functional health status in postsurgical patients with life-threatening long-term illnesses. Journal of advanced nursing, 70(6), 1310–1322.

Fleiri heilsumolar

Höfundur

Hrefna Óskarsdóttir Avatar
Scroll to Top