Heilaörvunarmiðstöðin (HÖM)
Í hnotskurn
Þjónusta
Heilaörvun
Fyrir hverja?
Heilaörvunarmiðstöð (HÖM) þjónustar einstaklinga með meðferðarþrátt þunglyndi (unipolar þunglyndi) sem vísað er frá geðlæknum eða heimilislæknum.
Hvert er markmiðið?
Í TMS-meðferð er segulörvun beint að svæði í framheila sem er vanvirkt hjá fólki sem þjáist af þunglyndi.
TMS-meðferð örvar taugafrumur í heilaberki sem síðan senda boð til tauga í undirliggjandi taugakjörnum / knippum sem sýnt hefur verið fram á að eru vanvirkari hjá fólki með lyndisraskanir eins og þunglyndi.
Með endurtekinni segulörvun þessarra svæða má bæta líðan.
Nánari upplýsingar
TMS er skammstöfun á því sem á ensku nefnist Transcranial Magnetic Stimulation sem þýða mætti sem segulörvun á heila.
TMS-meðferð er ekki ífarandi sem þýðir að meðferðin krefst hvorki svæfingar, deyfingar né skurðaðgerðar. Skjólstæðingur er vakandi meðan á meðferð stendur og getur haldið sína leið að meðferð lokinni.
TMS-meðferð beinist að afmörkuðu svæði heilans og hefur ekki bein áhrif á önnur líffærakerfi, ólíkt t.d. virkni margra lyfja.
TMS-meðferð byggir á endurtekningu og krefst þess að skjólstæðingar mæti í meðferð alla virka daga vikunnar í fjórar til sex vikur. Sumir finna fljótt fyrir breytingu á líðan á meðan áhrifin koma seinna hjá öðrum. Þá sýna rannsóknir að um 30% einstaklinga finni engan mun á líðan sinni eftir TMS-meðferð.
Greiðsluþátttaka notenda er í lágmarki þar sem aðeins er greitt komugjald.
Á Heilaörvunarmiðstöð starfar fagfólk sem fengið hefur sérstaka þjálfun í meðferð með TMS-tækjum. Nú eru geðlæknir, hjúkrunarfræðingur og taugalífeðlisfræðingur starfsmenn HÖM.