Þunglyndis- og kvíðateymi (ÞOK)
Í hnotskurn
Þjónusta
Félagsráðgjöf ♥ Hugræn atferlismeðferð ♥ Iðjuþjálfun ♥ Læknismeðferð ♥ Sálfræðiþjónusta
Fyrir hverja?
Þunglyndis- og kvíðateymið er þverfaglegt göngudeildarteymi sem sinnir einstaklingum með þunglyndi og kvíðaraskanir
Hvert er markmiðið?
Meginverkefni Þunglyndis- og kvíðateymisins er að sinna einstaklingum með alvarlegt þunglyndi og kvíðaraskanir. Teymið beitir meðal annars hugrænni atferlismeðferð (HAM) og/eða lyfjameðferð.
Nánari upplýsingar
Í teyminu eru þrjár þjónustulínur:
1. Meðferð og greining kvíðaraskana og þunglyndis
- Kvíðaraskanir:Alvarleg áráttu- og þráhyggjuröskun, almenn kvíðaröskun, félagsfælni, heilsukvíði, ofsakvíði með eða án víðáttufælni, líkamsskynjunarröskun, ælufælni og hárplokkunar- og húðkroppunarárátta.
- Þunglyndi:Alvarlegt og endurtekið þunglyndi sem veldur verulegri hömlun í lífi og starfi.
2. Greining á samsettum geðvanda
Í greiningarlínu þunglyndis- og kvíðateymis fer fram greiningarvinna þar sem þörf er á mismunagreiningu til að ákvarða viðeigandi meðferð og næstu skref. Í greiningarlínu er hægt að vísa fólki sem er að glíma við langvinnar geðraskanir en fyrsta eða önnur línu þjónusta hefur ekki skilað árangri og óljóst hver meginvandi er.
3. Meðferð fyrir skjólstæðinga sem eru nýútskrifaðir af móttökugeðdeild – Byggjum brú
Meðferð fyrir skjólstæðinga sem nýverið hafa útskrifast af móttökugeðdeild og þurfa áframhaldandi stuðning. Markhópurinn eru einstaklingar sem hafa verið lagðir inn vegna sjálfsvígshættu, þunglyndis, kvíðaraskana eða lífskrísu. Skjólstæðingar eru í brúnni að jafnaði í þrjár vikur og fá á þeim tíma boð um að taka þátt í grunnhóp sem er tvisvar í viku og einstaklingsviðtöl hjá sálfræðingi. Einnig er í boði fyrir skjólstæðinga sem eiga börn undir 18 ára aldri fjölskyldustuðningur. Sumir útskrifast úr geðþjónustunni eftir Byggjum brú en aðrir fara í áframhaldandi þjónustu innan meðferðareiningu lyndisraskana.
Þeir sem eru á biðlista eða eru komnir í meðferð geta haft samband með því að senda fyrirspurn í gegnum Heilsuveru.