Markhópur
Nám í Bataskólanum er opið öllum 18 ára og eldri. Það er hugsað fyrir þá sem glíma við geðrænar áskoranir en hann er einnig opinn aðstandendum og starfsfólki á heilbrigðis- og velferðarsviði.
Ekki þarf neina tilvísun eða greiningu til að komast í bataskólann, einstaklingar meta sjálfir hvort þeir eiga erindi og sækja um sjálfir með því að senda póst á bataskoli@gmail.com.
Markmið
Bataskólinn byggir á svo kallaðri batahugmyndafræði og eru sambærilegir skólar (e. recovery college) starfræktir víða um heim. Fyrstu bataskólarnir voru stofnaðir í Bandaríkjunum í kringum 1990 og á næstu áratugum voru sambærilegir skólar stofnaðir víða um heim og finnast þeir meðal annars á norðurlöndunum, Bretlandi, Írlandi, Kanada, Ástralíu, Japan og víðar. Bataskóli Íslands er byggður upp af fyrirmynd Nottingham Recovery College og er starfræktur í samstarfi við hann.
Bataskólar sinna fullorðinsfræðslu um efni sem tengist geðheilsu en þar fer ekki fram nein greining eða meðferð á geðröskunum. Áhersla er á nám en ekki meðferð og að hver og einn einstaklingur læri aðferðir sem henta honum til að vinna að eigin bataferli. Hugmyndafræðin sem skólarnir byggja á gengur út frá því að ekki er alltaf möguleiki á að losna undan öllum einkennum geðraskana en að alltaf er möguleiki á að bæta lífsgæðin og öðlast merkingabært líf með eða án einkenna.