Geðheilsumiðstöð barna
Í hnotskurn
Þjónusta
Greining ♥ Meðferð ♥ Námskeið ♥ Ráðgjöf
Fyrir hverja?
Geðheilsumiðstöð barna (GMB) veitir 2. stigs heilbrigðisþjónustu á landsvísu fyrir börn að 18 ára aldri.
Hvert er markmiðið?
Miðstöðin sinnir greiningu, ráðgjöf og meðferð vegna geð- og þroskavanda barna og unglinga.
Nánari upplýsingar
Þverfaglegur starfshópur vinnur eftir markvissu skipulagi með fagleg gæði að leiðarljósi. Áhersla er á gott viðmót og fjölskyldumiðaða þjónustu. GMB á reglulegt samstarf við þjónustuveitendur víðsvegar um landið og sinnir starfsþjálfun háskólanema á sviðinu.
Þátttakendur greiða fyrir námskeið, að öðru leyti er þjónustan gjaldfrjáls. Námskeið sem eru í boði:
- Barn verður til - og foreldrar líka! Tengslamiðað námskeið fyrir verðandi foreldra.
- Ertu að tengja? Uppeldi, tengsl og foreldrahlutverkið: Námskeiðið er ætlað foreldrum 1-5 ára barna.
- Uppeldi barna með ADHD: Fyrir foreldra barna með hamlandi ADHD einkenni.
- Klókir litlir krakkar: Fyrir foreldra 3 - 6 ára barna sem eru ofurvarkár og kvíðin.
- Snillingarnir: Fyrir 9 - 12 ára börn sem greinst hafa með ADHD.
- Vinasmiðjan: Fyrir 10 - 12 ára börn sem greinst hafa á einhverfurófi.
- Meðferð fyrir unglinga með OCD: Fyrir foreldra og unglinga á aldrinum 13 - 18 ára.
Greiningarteymin
Greiningarteymin (yngri barna 6-12 ára og eldri barna 13-18 ára) sinna nánari greiningu barna og unglinga að 18 ára aldri ef sterkar vísbendingar eru um athyglisbrest, ofvirkni (ADHD) eða skyldar raskanir, svo sem tilfinningavanda, hegðunarerfiðleika, samskiptavanda eða hamlandi einkenni einhverfurófs.
Ráðgjafar- og meðferðarteymi
Ráðgjafar- og meðferðarteymi veita ráðgjöf og meðferð til barna, unglinga og fjölskyldna þeirra sem glíma við geðheilsuvanda sem krefst aðkomu þverfaglegs teymis. Einnig veitir teymið ráðgjöf til fagaðila og annarra þjónustuaðila á landsvísu.
Fjölskylduteymi
Fjölskylduteymið veitir þjónustu til verðandi foreldra og foreldra ungra barna (0-5 ára) sem þurfa tengslaeflandi meðferð m.a. vegna eigin vanlíðunar, flókins og/eða fjölþætts vanda. Einnig ef áhyggjur eru af líðan eða þroska barns.
Fjölskylduteymið er fyrir þá sem þurfa meiri og sérhæfðari þjónustu á meðgöngu og eftir fæðingu en er veitt á heilsugæslustöðvum.